Ferill 304. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 824  —  304. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (flutningur fjármuna, VRA-vottun).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Írisi Ösp Ingjaldsdóttur, Gísla Rúnar Gíslason og Elvar Örn Arason frá tollstjóra og Þórð Sveinsson og Valborgu Steingrímsdóttur frá Persónuvernd. Nefndinni barst umsögn um málið frá Persónuvernd.
    Efni frumvarpsins er tvíþætt og lýtur annars vegar að upplýsingagjöf um flutning fjármuna milli landa en hins vegar að svokallaðri VRA-vottun, vottun viðurkenndra rekstraraðila, sem ætlað er að stuðla að aukinni skilvirkni og öryggi við tollafgreiðslu vegna vöruflutninga. Sá þáttur sem snýr að upplýsingagjöf um flutning fjármuna milli landa er liður í viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við tilmælum alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF (Financial Action Task Force) í úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem birt var í apríl á síðasta ári.
    Til umræðu kom í nefndinni hvort ákvæði 6. gr. frumvarpsins um vinnslu upplýsinga í tengslum við veitingu eða afturköllun VRA-vottunar veittu tollstjóra svo víðtæka heimild til vinnslu persónuupplýsinga, eða legðu slíka skyldu á aðra opinbera aðila til að veita tollstjóra upplýsingarnar, að stangaðist á við ákvæði persónuverndarlaga. Í umsögn til nefndarinnar sem og á nefndarfundi kom fram það mat Persónuverndar að þegar ákvæðið væri virt í samhengi við útskýringar í greinargerð frumvarpsins væri ekki tilefni til athugasemda af hálfu stofnunarinnar.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. janúar 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Smári McCarthy.